Ef marka má...

... mína leti að undanförnu er áhugi minn fyrir að halda uppi bloggi á íslensku horfinn enn á ný. Það er eitthvað við það að rita á þessu máli sem er bara argasta pínan.

Ég held uppi öðru bloggi á betri stað áfram. Heimsækið mig: 

http://smari.yaxic.org


Ef marka má Helle Thorning-Smith...

... og Mónu Sahlin, þá þarf konu til verksins. Þrátt fyrir þá sæmilega vel þekktu staðreynd að karlaveldið hefur staðið sig sæmilega vel hingað til.

Ekki það að kona geti ekki stjórnað - þvert á móti, en nefna má þó nokkrar jafnaðarstjórnir sem hafa verið undir forystu karlmanna. Þessi tilhneyging til þess að setja samasemmerki milli jafnaðarhreyfinga og kvenréttindabaráttu er í besta falli neyðarleg: konur eru ekki lykillinn að jafnrétti.

Þessa heláhugaverðu staðhæfingu þarf sennilega að réttlæta.

Ef skoðaðar eru kröfur kvenréttindakvenna á borð við Sóley Tómasdóttur þá sést það nokkuð glöggt að það sem óskað er eftir að þeirra hálfu er allt annað en jaffrétti og jöfnuð. Gerðar eru kröfur um að þvingað jafnræði sé í stjórnun fyrirtækja, að þvinguð kynjahlutföll séu á Alþingi, og þar fram eftir götunum.

Lykilorðið hér verandi "þvingað".  Það jafnrétti sem boðað er er engan vegin jafnt: verið er að kyrja fram einhverskonar ímyndað jafnrétti kynjanna á kostnað alls annars jafnréttis.

Það sem ætti frekar að gera er auðvitað að fara að ala kynin upp án kynhlutverka og bíða átekta. Samræða hugmyndafræði og aðgerðir og hætta kynbundnum launamismun, svo dæmi séu nefnd. Það að skerða rétt fólks er allavegana ekki rétt leið að markmiðinu.

Hvað svo sem jafnaðarmannaflokkarnir kunna að halda.

Er nokkuð að marka þetta?


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má Jyllands-Posten...

... er Manchester í Boston. Nema auðvitað að Morgunblaðið hafi gert þessi mistök, en það væri alveg nýr bragur, enda er hefðin þar á bæ að apa allar villur sem þeir geta eftir öðrum.

Þrennt má segja um þetta. Hið fyrsta er að borgir eru sjaldnast inní öðrum borgum, og þá sér í lagi er Manchester ekki í Boston.

Annað er það að Boston er í Massachusetts, meðan Manchester er það ekki.

Þriðja er að Manchester sú er rætt er um er í New Hampshire.

Er nokkuð að marka þetta?

Uppfærsla: Jyllandsposten eru saklausir af þessu. Moggamenn sem þýða hafa greinilega bara ekki næga þekkingu á staðháttum: Umræddur flugvöllur er Boston Regional Airport, sem er í Manchester. Manchester í New Hampshire er ekki langt frá Boston í Massachusetts -- en þetta er samt sitthvort fylkið!


mbl.is Deilt um klósettferð flugumferðarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má Tony Blair...

... þá var það ekki frábær hugmynd að leyfa sjóliðunum að selja sögur sínar. En viti menn, þetta er þrátt fyrir að ætlunarverkið hafi tekist að stóru leyti. Auðvitað ætluðu þeir að leyfa þeim að birta sögur sínar til þess að auka á hræðilegu níðingsímynd Írana, en svo fór fólk að gera athugasemdir við þetta og þeir drógu sig til baka af hræðslu við að þetta hefði farið eitthvað úrskeiðis.

Eftir sem áður hefur stuðningur Breta við innrás í Íran hafi aldrei verið meiri, og Blair kæmist sennilega alveg upp með að fyrirskipa slíkt um leið og suðan fer niður í þessu máli. Spurningin er bara hvort að Bush nái líka að hóa saman herliði.

Blair segir að þetta hafi ekki allt verið planað. En ég segi: Er nokkuð að marka þetta? 


mbl.is Blair segir að það hafi verið slæm hugmynd að leyfa sjóliðunum að selja sögur sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má ungmenni íslands...

... þá mun atvinnulífið vera hér einstaklega fábrotið eftir nokkur ár. Fólk mun eingöngu starfa við störf þar sem að laun eru há, og vænta má að þau haldist há þrátt fyrir geysilegt offramboð af menntuðu fólki í þeim störfum.

En við erum að tala um 15 ára unglinga. Hvað hugsar fólk sem lokið hefur framhaldsskóla og er komið í háskólanna? Ég hef lengi tekið eftir þeirri tilhneygingu að til sé einhver tískugrein fyrir hvert 5-10 ára tímabil. Núna er tískufagið verkfræði. Öll fræði eru fræðum æðri sé orðinu 'verk' skeytt þar framan við, eða svo mætti halda af umræðunni. Er nú orðið svo ástandið í Háskóla Íslands að ekki er þverfótandi fyrir verkfræðinemum, og Háskólinn í Reykjavík er búið að finna út að það er hægt að skeyta "verkfræði" á eftir orðunum "heilbrigðis" og "fjármála" með alveg hreint ljómandi árangri.

Þar á undan var það tölvunarfræði sem þótti svo dásamleg. Sjálfur var ég sannfærður um ágæti þess að vera tölvunarfræðingur þegar ég var 15 ára, þó svo að ég sé nokkuð viss um að ég hafi skáldað upp eitthvað öllu hátíðlegara í þessari könnun þegar ég tók hana. Sem betur fer sprakk internetbólan, sem markaði enda þeirrar tískubylgju.

Á undan því var viðskiptafræði. Ég man er bróðir minn ætlaði í slíkt. Hann sá sem betur fer að sér. Á undan því held ég að lögfræði hafi verið í tísku. Svo gengur þetta alltsaman hring eftir hring.

En nú hafa nokkrir vaskir menn talað mikið um þetta mál. Ein áhugaverðasta staðreyndin sem rætt er oft um er það hvernig menntakerfið er algjörlega hannað til þess að sinna þörfum iðnbyltingarinnar -- að mismunandi störf eru gefið mismunandi vægi, að sum eru hærra metin en önnur, þrátt fyrir þá augljósu staðreynd hve nauðsynlegt er að heilbrigt jafnvægi haldist á öllum svona hlutum. Sköpunargleði er umsvifalaust bæld í þágu samhugs. Tilgangur starfsfræðslu í grunnskólum er að miklu leyti að vekja athygli á þessarri staðreynd, en eins og sést á þessarri könnun hefur það ekki skilað sér.

Krakkar virðast haldnir glæstum vonum um framtíð þar sem að allir geta verið læknar, sálfræðingar, verkfræðingar og arkitektar, og við sem höfum fullorðnast ögn meira erum sek um að ala í þeim þessa draumóra um að allir geti unnið einhæf störf og þegið hminhá laun, og við erum sek um að  bæla þá sköpunargleði sem í börnunum býr.

En er nokkuð að marka okkur? 


mbl.is 10% landsmanna læknar árið 2030?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má Sjálfstæðisflokkinn...

... þá munu lækkanir á sköttum til fyrirtækja skila sér í aukinni velmegun einstaklinga. Þetta er sagt þrátt fyrir að virðisaukaskattslækkunin hafi skilað sér fyrst og fremst til fyrirtækja, og að örlitlu magni til einstaklinga (og það alfarið vegna þess að Baugsveldið sá sóma sinn í því að skila þessu á réttan stað, og neyddi því beina samkeppnisaðila sína til þess að gera slíkt hið sama).

En lækkannir á sköttum, þá sérstaklega til fyrirtækja, sem borga í dag meirihluta þeirra skatta sem greiddir eru, mun sennilega lítið gera annað en að veikja mennta- og heilbrigðiskerfin ennþá meira; minna fé verður í ríkiskassanum og þá verður auðvitað gripið til þess ráðs að leggja til einkavæðingu sjúkrahúsanna til þess að þeir standi undir sér. Munum að það er sama fólkið sem segir þetta og sagði að það væri bráðsnjöll hugmynd að færa rekstur grunnskólanna undir sveitarfélögin án þess að færa til allt of mikið fjármagn.

Þeir kveðast ennfremur vilja afnema tolla og stimpilgjöld. Það er erfitt að deila um það að þetta sé slæm hugmynd, en helstu rökin eru að tollar verndi innlenda framleiðslu að einhverju leyti og stimpilgjöld eru, merkilegt nokk, ansi stór tekjulind fyrir sýslumannsembætti. Á kannski að einkavæða þau líka?

Innlend framleiðsla hefur auðvitað tvo kosti. Annaðhvort að gerast samkeppnishæf, eða að leggjast af. Veltum við því upp grundvallarspurningar um það hvort að landbúnaður geti þrifist á Íslandi, og almennt hvort að landið geti staðið undir sér. Hér eru auðlindir takmarkaðar, jarðvegurinn næringarlítill og stórgrýttur. Almennt eru búskilyrði slæm. En svo framarlega sem að eitt og eitt álver er byggt þá ætti það ekki að vera allt of mikill vandi að veita öllum vinnu sem vinna vilja.

En viti menn, þeir segja líka að ríkisvaldið þurfi ekki að beita sér fyrir stóriðju, og meiraðsegja að það þurfi að hægja á virkjunarframkvæmdum. Þetta er auðvitað ekki vegna þess að þeir hafi aflað sér gríðarlegra óvinsælda með öllu þessu álfári, heldur er þetta vegna þennslu. Það sér það hver maður að þennsla er slæm, er það ekki?

Þeir halda því jafnframt fram að nýtingarréttur auðlinda eigi að vera í höndum einstaklinga. Þegar þeir segja einstaklingar þá meina þeir að sjálfsögðu fyrirtæki. Nú í Ágúst taka gildi ný vatnalög þar sem að þessarri hugsjón er komið til skila, og við munum brátt sjá hvort að Bechtel kaupi vatnið í Reykjavík á sama hátt og þeir gerðu í Cochabamba árið 2000. Mun þessi einkavæðing hjálpa hinum dæmigerða Íslendingi?

Er nokkuð að marka þetta? 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur stefnir að frekari skattalækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má þessa löggjöf...

... eru allir hryðjuverkamenn heiðarlegir og segja til sín í trúnaði þegar að þeir stofna nýja bankareikninga. Þó svo að enginn ættmaður minn fari fyrir þvílíkri þingnefnd að hálfu Bandaríkjanna, að rannsaka bakgrunn allra sem bent er á, þá er alveg samskonar pæling að baki þessu.

Það er rosalega mikið af áberandi tilraunum í gangi til þess að stöðva hryðjuverk. En það er líka mergurinn málsins að hafa þau nógu fjári áberandi. Fjármálafyrirtæki eru látin spyrja fólk spjörunum úr (þó svo að ég voni að það verði ekki gert bókstaflega) og flugvellir eru látnir hafa nóg af öryggissveitum í flugstöðvarbyggingunum til þess að það líti út fyrir að aukið öryggi sé til staðar. Vökvar eru bannaðir í flugvélum og fleira til, allt til þess gert að láta fólk sannfærast um það að hryðjuverkaógnin sé rétt handan hornsins.

En sérhver hryðjuverkamaður sem kanna myndi raunverulegt öryggi flugvalla myndi sjá strax að ekki er búið að bæta öryggi á nokkurn hátt á þeim svæðum þar sem að fólk fer almennt ekki. Þeir gætu klifrað yfir grindverk eða klippt sig í gegnum það með minniháttar fyrirhöfn. Og svo, þegar að þeir vilja stofna bankareikning í Kaupþingi, þá einfaldlega ljúga þeir. Hvers vegna ekki? Ef að fólk hefur gert sér það að ævistarfi að myrða fólk og sprengja sig og aðra, þá ætti það að ljúga ekki að vefjast allt of mikið fyrir þeim.

En spyrjið ykkur endilega að tvennu:

  1. Hvort eru þessar reglur gerðar til þess að hafa uppi á þeim, eða að hafa stjórn á okkur?
  2. Er nokkuð að marka þetta?

mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má sjóliðanna...

... voru þeir í Írak þegar að þeir voru handteknir, en Íranir sáu sér fært að skella sér yfir landamærin til þess að handtaka þá. Þetta eiga Íranir að hafa gert þrátt fyrir að Bandaríkin og Bretland séu að reyna eftir fremsta megni að skálda upp ástæðu til þess að ráðast þar inn.

Tilraunir Írana til kjarnaorkuvinnslu hafa löngum verið hornauga litin af stjórnvöldum hins vestræna heims. Þeim líður eitthvað illa við það að fleiri hafi greiðan aðgang að ótæmandi uppsprettu raforku, svo ekki sé minnst á möguleika á að verja land sitt með einkar banvænu afli ef að þurfa þykir. Þannig að auðvitað er það sjálfsagt mál að einmitt þegar að samherjarnir Bush og Blair vilja ólmir fara að senda inn herlið til þess að tryggja stöðugleika, frið, og lýðræði í Íran (sem hefur auðvitað ekkert að gera við olíu og jarðgas) þá fyrir algjörri tilviljun brjóta Íranskir hermenn alþjóðalög með því að handtaka Breska hermenn í Írakskri landhelgi, og stofna þar með landinu sínu í hættu?

Er nokkuð að marka þetta?


mbl.is Sjóliðarnir segjast hafa verið beittir harðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má Flugmálastjórn Bandaríkjanna...

...þá liggja ekki fyrir nægilegar rannsóknir til þess að styðja þá skoðun að í lagi sé að nota GSM síma í háloftunum. En hvergi kemur fram nákvæmlega hvaða rannsóknir hafa verið gerðar. Teldi ég það fullkomnlega ásættanlegt próf að fara upp í loftið á nokkrum gerðum flugvéla og brúka símann, og sjá það þá empírískt hvort að það sé hættulegt eða ekki að tala í hann þar. Auðvitað skyldi sá sem sæi um masið ekki vera undir stýri til þess að fyrirbyggja mannleg mistök, en eftir nokkur hundruð flugtíma væri hægt að segja, í það minnsta, að búið væri að sannreyna hættuleysið fyrir ákveðnar gerðir flugvéla. Svo væri hægt að setja reglur um að prófa þyrfti ákveðnar útvarpstíðnir innan úr farþegarými í flugprófun allra nýrra flugvéla. Væri það nokkuð mál?

Burt Rutan sagði í fyrirlestri sínum á TED í fyrra að ástæðan fyrir hægri þróun flugsamgangna væri sú að enginn þorði að taka áhættur lengur, að allt hafi gengið mun hraðar og betur fyrir sig þegar að það var ekki til neitt sem hét "reyndur flugmaður", og menn gerðu bara það sem þeir gátu til þess að prófa sig áfram. Náttúrulegt val tryggði að góðar hugmyndir um flugvélahönnun kæmust áfram en að slæmar hugmyndir myndu farast með flugmanninum, sem var iðulega jafnframt uppfinningamaðurinn.

Hvernig væri, svona, í viðbót við þetta, að skikka hönnuði flugvéla til þess að vera um borð í fyrstu prufukeyrslunni? 

Er nokkuð að marka þetta?


mbl.is Farsímar verða ekki leyfðir í bandarískum flugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef marka má Ágúst Ólaf Ágústsson...

...þá munu atkvæði sem fara til lítilla flokka detta niður dauð og styrkja stöðu stjórnarflokkanna. Þá má spyrja sig hvort að þessi atkvæði styrki ekki aðra flokka í réttu hlutfalli við fylgi flokkanna. Ef að atkvæði detta niður dauð, þá teljast þau væntanlega ekki með, og er þá frekar eins og að viðkomandi hafi ekki komið og kosið en að viðkomandi sé að lýsa yfir stuðningi við flokk sem hann kýs ekki.

En svo er annar vængur á þessu: Ef að fólk kýs ekki, þá virkar lýðræðið ekki. Ef að fólk kýs flokka sem fá ekki nægilegt fylgi til þess að koma mönnum inn, er það sama að gerast? Eða er þetta bara gangverk lýðræðisins - fólk að tjá sína sönnu skoðun, sem er ef til vill bara of óalgeng skoðun til þess að réttlæta að sú skoðun eigi sér fulltrúa á þingi.

Ef að allir færu nú að kjósa stóru flokkanna vegna þess að þeir litlu ættu ekki séns, þá væri lýðræðið fallið um sjálft sig. Ef að góðar hugmyndir ná ekki að fljóta upp á yfirborðið vegna þess að enginn þorir að víkja frá hefðinni og styðja þær hugmyndir, er þá ekki orðið gjörsamlega óraunhæft að halda uppi lýðræði? Væri ekki bara betra að segja eina hugmynd rétta og lýsa yfir alræði þeirra sem henni fylgja?

Er nokkuð að marka þetta?


mbl.is Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband